Flugfarþegaflutningastjórnkerfi
22.5.2014 | 01:01
Hvernig væri nú að kvótakerfi væri innleitt í flugsamgöngur? Eftirspurn eftir flugi til og frá Íslandi kemur jú ekki að sjálfu sér. Hún er auðlind sem þarf að standa vörð um og rækta.
Taka mætti flugfarþegaflutningareynslu síðustu þriggja ára og útdeila farþegakvótum til viðkomandi fyrirtækja. Ekki þyrfti að skipta máli þó þessi fyrirtæki hefðu hætt flugrekstri, eða rekstri yfirhöfuð.
Þegar reiknimeistarar ríkisins hefðu lokið sinni vinnu vissum við hversu marga flugfarþega hvert fyrirtæki mætti flytja á hverju flugfarþegaflutningsári. Stæði þannig á mættu leyfisnjótandi fyrirtæki leigja frá sér farþegakvótann til annarra fyrirtækja á markaðsvirði. Ekki þyrfti að skipta máli hvort leigutakinn hefði nokkra reynslu af farþegaflutningum.
Handhafar farþegaflutningskvóta mættu alveg selja frá sér flutningaleyfi og/eða telja þær fram sem eignir á efnahagsreikningi. Jafnvel þó stjórnarskrá viðkomandi lýðveldis teldi að flugfarþegaflutningaauðlindin væri einhverskonar sameign þjóðarinnar.
Að líkindum er þetta þjóðráð, því ekki viljum við að flugfarþegaflutningafyrirtæki taki upp á því að eyðileggja túristaauðlindina með því að neyða atvinnulausa Breta og hælisleitandi flökkukindur allraþjóða til að heimsækja Ísland og eyða engu en borða bara nestið sitt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.